Félag lífeindafræðinga – 5o ára

Um þessar mundir verður Félag lífeindafræðinga 50 ára, nánar tiltekið 20. apríl 2017. Af því tilefni tók formaður saman eftirfarandi pistil og notaði til þess heimildir úr gömlum tímaritum félagsins, er það von okkar að það veiti ykkur skemmtilegan sem og sögulegan fróðleik tengdan sögu og þróun lífeindafræði á Íslandi. Pistillinn er ekki fullbúinn og verður bætt við hann á afmælisárinu og vonandi náum við að fara yfir helstu atriði í allri 50 ára sögu félagsins á þessu ári.

Fyrstu árin

Félagið hét upprunalega Meinatæknafélag Íslands og var stofnað 20. apríl 1967. Nokkru fyrir þann tíma var starfandi hér allmargt rannsóknarfólk og þörfin fyrir að starfrækja eiginlegan skóla til þess að þjálfa og mennta fólk til rannsóknarstarfa á svið læknisfræði var knýjandi. Meinatæknadeild tók til starfa haustið 1966 í Tækniskóla Íslands og í kjölfarið sá rannsóknarfólk þörf á stofnun fagfélags. Tvær rannsóknarkonur, Jóhanna Jónasdóttir og Guðbjörg Sveinsdóttir höfðu forgöngu um að boða til undirbúningsfundar í Tjarnarbúð að kvöldi 13. febrúar 1967. Á fundinum voru lögð fram drög að lögum félagsins og ákvað fundurinn að af félagsstofnun yrði. Miklar umræður voru á fundinum um nafn félagsins og komu fram fjórar tillögur og varð fjórða tillagan hlutskörpust:

  1. Félag íslenzkra sjúkralaboranta
  2. Félag íslenzks rannsóknarfólks
  3. Félag íslenzkra meinatækna
  4. Meinatæknafélag Íslands

Fyrsti formaður félagsins var kjörinn á fundinum, Elísabet Þorsteinsdóttir frá Rannsóknarstofu Háskólans. Framhaldsstofnfundur félagsins var svo haldinn þann 20. apríl 1967 þar sem félagið var formlega stofnað og stefna í félagsréttindum ákvörðuð. Á fyrsta starfsári félagsins voru umsóknir yfirfarnar m.t.t. laga félagsins og gengið frá félagaskrá, fullgildir meðlimir félagsins á fyrsta aðalfundi eftir stofnun voru 51 meinatæknir. Á aðalfundi 5. mars 1968 var félagið fullmótað og farið að marka sér stefnu í öllum höfuðmálum, og strax á þessum tíma var rætt um erlent samstarf og samþykkt að efla tengsl við erlend félög eins og kostur var. Árið 1968 var ákveðið að félagið myndi sækja um aðild að norðurlandasamtökum meinatækna sem og alþjóðasamtökum. Á fyrstu árum félagsins hélt félagið fjölmarga fræðslufundi, gerðist aðili að samtökum heilbrigðisstétta og hélt árlega árshátíð fyrir félagsmenn sína.

Árið 1969 hvatti félagið öll sjúkrahús til þess að búa sig undir það að taka við menntuðum meinatæknum til starfa þar sem vitað var að aðstaða til rannsóknarstarfa var víða léleg eða jafnvel ekki fyrir hendi. Á fyrstu árum félagsins fóru allar atvinnuauglýsingar fyrir meinatækna fram fyrir tilstuðlan Meinatæknafélags Íslands. Þess má geta að þó félagið hafi í upphafi eingöngu verið fagfélag þá er ljóst að kjör félagsmanna voru stjórnarmönnum félagsins hugleikin, einn félagsfundur félagsins árið 1969 fjallaði til dæmis um kjaramál og ályktun send út þar sem þess var krafist að lífeindafræðingar yrðu hækkaðir í launum úr 15. launaflokki í 18. launaflokk. Kröfunni til stuðnings var meðal annars lengd námsins eftir skyldunám, ábyrgð starfsins þar sem sjúkdómsgreiningar og læknismeðferðir byggðust í auknum mæli á rannsóknum þeirra. Þetta varð til þess að laun meinatækna voru hækkuð úr 15. launaflokki í 16. launaflokk og voru þá á pari við laun barnakennara með 4 ára nám að loknu skyldunámi, þess má geta að á þeim tíma var nám meinatækna 7 ár eftir skyldunám.

Árin 1970-1975