Category

Kjaramál

Fréttir af aðalfundi 2018

By | Aðalfundir, Kjaramál | Engar athugasemdir

Aðalfundur FL var haldin í gær, 26.04.2018 og var vel mætt, en 36 skráðu sig í gestabók. Hefðbundin aðalfundarstörf gengu vel. Reikningar félagsins og skýrsla stjórnar hefur nú verið sett inn á innri vef félagsmanna eftir samþykkt. Á aðalfundi var fráfarandi formaður, Gyða Hrönn Einarsdóttir kvödd og þökkuð vel unnin störf undanfarin 4 ár en einnig lætur af störfum gjaldkeri félagsins, Sigurlína Dögg Tómasdóttir sem hefur setið í stjórn í sex ár sem er hámarkstími stjórnarsetu. Nýr formaður var kjörin Alda Margrét Hauksdóttir sem starfar hjá Hjartavernd og nýr fulltrúi í stjórn Kristín Bjarnadóttir, einnig hjá Hjartavernd og fögnuðu fundarmenn með lófataki og óskuðu þeim velfarnaðar í störfum sínum fyrir félagið okkar.

Í kjölfar nefndarfundar í vor lagðist stjórn yfir nefndir félagsins og lagði til breytingar sem fundurinn samþykkti. Sjóðsstjórnir Vísinda- og fræðslusjóðs og Hvatningasjóðs voru sameinaðar í eina sjóðsstjórn með það í huga að sameina sjóðina, eins voru sameinaðar Fræðslu- og endurmenntunarnefnd og ritnefnd og lagt til að nefndin einbeitti sér í auknum mæli að útgáfu pistla á vef félagsins og hætti blaðaútgáfu.

Undir liðnum önnur mál voru rædd nokkur mál, meðal annars kom fram á fundinum ánægja vegna velgengni lífeindafræðinga og voru tveir nefndir sérstaklega: Guðrún Björt Yngvadóttir sem er að taka við sem alþjóðaforseti Lionshreyfingarinnar og Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch sem er að skapa sér nafn í vísindaheiminum. Undir liðnum önnur mál var einnig samþykkt ályktun aðalfundar vegna kjaradeilu ljósmæðra sem staðið hefur yfir nú í 7 mánuði og virðist vera í miklum hnút.

Ályktun aðalfundar FL 2018

Í vor skrifaði FL undir kjarasamning ásamt fjölda annarra aðildarfélaga innan BHM. Með kjarasamningi þessum fylgdi yfirlýsing sem kvað m.a. á um átak í heilbrigðismálum og að stefna skuli að því að skapa eftirsóttan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsmenn. Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að ráðist verði í úrbætur á starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstarfsmanna í samráði við aðildarfélög BHM. Undir yfirlýsingu þessa skrifa þrír ráðherrar, forsætis-, fjármála og efnahags- og heilbrigðisráðherra. 

Ljósmæðrafélag Íslands stendur nú í kjaradeilu við ríkið. Félagsmenn LMFÍ hafa hvað lengsta grunnmenntun aðildarfélaga innan BHM en á vef fjármálaráðuneytis má sjá á gögnum frá í desember 2017 að meðalgrunnlaunasetning ljósmæðra þarf að hækka um tæplega 44.000 krónur til að ná meðalgrunnlaunasetningu BHM. Aðalfundur FL skorar á stjórnvöld að sýna nú að fyrrnefnd yfirlýsing sé ekki innantómt loforð og hefja úrbætur með því að leiðrétta samstundis launasetningu ljósmæðra með myndarlegum hætti.

Nýr stofnanasamningur á HVE

By | Kjaramál | Engar athugasemdir

Í dag, 23. apríl 2018, var undirritaður nýr stofnanasamingur milli Félags lífeindafræðinga og Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE). Töluverðar breytingar voru gerðar á samningnum, til þess var meðal annars nýtt fjármagn sem fylgdi bókun 6 úr miðlægum kjarasamningi. Tilgangur bókunar 6 er að draga úr mönnunar- og nýliðunarvanda stofnana og að lagfæra lægstu laun í stofnanasamningum. Með þessum samningi var einnig útfært það fjármagn sem fylgdi gerðardómi árið 2015 en það hafði ekki verið úrfært á stofnuninni. Viðbótarmenntun kemur því nú ofan grunnröðun starfs sem þrep en ekki sem flokkar eins og áður var. Við þessar breytingar getur verið að lífeindafræðingur lækki í flokki en hækki í þrepum. Enginn starfsmaður á þó að hafa lægri launasetningu í krónum eftir breytingar. Samninginn má finna hér: Stofnanasamn_FL_HVE_23.04.2018

Eftir undirritun þessa samnings hefur FL nú lokið við að útfæra það fjármagn sem samið var um í bókun 6 í síðasta miðlæga kjarasamningi og er það fagnaðarefni að það hefur gengið fljótt og vel fyrir sig, sérstaklega í ljósi þess að fjármagni sem fylgdi gerðardómi árið 2015 hefur enn í dag ekki verið úthlutað á öllum stofnunum ríkisins.

Nýr stofnanasamningur á SAk

By | Kjaramál | Engar athugasemdir

Í gær, 6. mars 2018, var undirritaður nýr stofnanasamingur Félags lífeindafræðinga og Sjúkrahússins á Akureyri. Töluverðar breytingar voru gerðar á samningnum, til þess var meðal annars nýtt fjármagn sem fylgdi bókun 6 úr miðlægum kjarasamningi. Tilgangur bókunar 6 er að draga úr mönnunar- og nýliðunarvanda stofnana og að lagfæra lægstu laun í stofnanasamningum. Einnig voru gerðar breytingar á mati á viðbótarmenntun til samræmis við gerðardóm frá árinu 2015. Viðbótarmenntun kemur því nú ofan grunnröðun starfs sem þrep en ekki sem flokkar eins og áður var. Við þessar breytingar getur verið að lífeindafræðingur lækki í flokki en hækki í þrepum. Enginn starfsmaður á þó að hafa lægri launasetningu í krónum eftir breytingar. Samninginn má finna hér: Stofnanasamn_FL_SAk_2018

Félagi lífeindafræðinga er kunnugt um að með þessum breytingum er orðin lítill munur á launasetningu nýútskrifaðra og reyndra lífeindafræðinga á SAk. Okkur er er einnig ljóst að þrátt fyrir töluverða hækkun dugir hún ekki til að koma launagreiðslum SAk að meðaltali félagsins. Fulltrúar félagsins ræddu þessa stöðu ítarlega við fulltrúa SAk og báðum aðilum er ljóst að betur má ef duga skal. Þessi samningur er skref í átt að því að SAk geti boðið lífeindafræðingum samkeppnishæf starfskjör, því takmarki hefur ekki verið náð.

Nýr stofnanasamningur undirritaður við LSH

By | Kjaramál | Engar athugasemdir

Samstarfsnefnd FL og LSH undirritaði í gær, þann 5. mars 2018, breytingar á stofnanasamningi aðila. Þær breytingar sem gerðar voru byggja á sérstöku átaki tengdu bókun 6 í miðlægum kjarasamningi sem undirritaður var í febrúar síðastliðnum. Tilgangur bókunar 6 er að draga úr mönnunar- og nýliðunarvanda stofnana og að lagfæra lægstu laun í stofnanasamningum. Breytingarnar sem nú eru gerðar tengjast 3ja kafla samnings og ná til starfaflokka A-C. Aðrir kaflar samnings haldast óbreyttir. Eftirfarandi breytingar eru gerðar á grunnröðun starfa:

Lífeindafræðingur A-B:       7.0
Lífeindafræðingur C:        7.1-7.2

Launasetning vegna sólarlags/ótilgreinds þreps (eitt þrep) gengur upp í hærri grunnröðun sé slíkt fyrir  hendi í röðun starfsmanns. Breytingin er afturvirk frá 1.janúar 2018 og munu leiðréttingar vegna breytinga væntanlega koma til greiðslu um næstu mánaðarmót mars/apríl 2018. Breytingar á launaröðun eru framkvæmdar miðlægt á mannauðssviði Landspítala en allir starfsmenn sem fyrrgreindar breytingar hafa áhrif á munu fá afhent skýringarbréf sem sýnir áhrif þessa samnings á launasetningu þeirra.

Við hjá Félagi lífeindafræðinga fögnum þessum samningi, það hefur verið stefna Samninganefndar félagsins um langt skeið að einbeita sér að hækkun grunnlauna og að færa sólarlagsákvæði inn í grunnlaunasetningu starfa. Við teljum þetta eitt skref á þeirri vegferð. Við munum leggja til samskonar breytingar á starfaflokkum D og E um leið og við sjáum tækifæri til þess, þ.e. þegar okkur hefur tekist að grafa upp aura í slíkt verkefni. Við vonumst til þess að þessi samþjöppun sem nú er orðin nýtist okkur sem vogarafl á þeirri vegferð.  Nýjan stofnanasamning má sjá hér: Stofnanasamningur FL_LSH mars 2018

 

Endurnýjun á kjarasamningi FL við ríki.

By | Kjaramál | Engar athugasemdir

Staðið hefur yfir atkvæðagreiðsla vegna endurnýjunar kjarasamnings FL við fjármálaráðherra. Með samningnum fylgir yfirlýsing þriggja ráðherra um umbætur í heilbrigðiskerfi landsmanna. Félagsmenn samþykktu samninginn og voru úrslit atkvæðagreiðslu eftirfarandi:


Á kjörskrá voru 225 félagsmenn.

Atkvæði greiddu 154 félagsmenn eða 68,4%, atkvæði skiptust þannig:

Samþykkt: 109 – 70,8%

Hafnað: 35 – 22,7%

Auð: 10 – 6,5%


Meðfylgjandi fréttinni er samningurinn og yfirlýsing frá ráðherrum. Samninginn má einnig finna undir  flipanum kjaramál hér á heimasíðunni.

Áramótapistill 2017/2018

By | Fagmál, Fréttir, Kjaramál | Engar athugasemdir

Okkur þótti rétt að líta aðeins í baksýnisspegilinn og renna lauslega yfir það helsta sem verið hefur á dagskrá hjá okkur á árinu ykkur til upplýsingar. Árið fór rólega af stað með því að við ásamt Félagi geislafræðinga buðum FLOG nemendafélagi í heimsókn til okkar í Borgartúnið. Góður hópur nemenda kíkti við og spurði ýmissa áhugaverðra spurninga. Það er alltaf jafn fróðlegt að spjalla við framtíðarfélagsmenn sér í lagi þegar maður áttar sig á breyttum áherslum sem fylgja nýjum tímum.

Stjórn FL hittist að jafnaði einu sinni í mánuði þar sem tekið er til umfjöllunar það helsta sem er á döfinni. Það geta verið margvísleg mál allt frá því að ræða afstöðu stjórnar til sölu á eignarhlut í sameign BHM til aðildarfélags eða umræða um kjaramál eða framþróun í faginu okkar. Við héldum aðalfund í mars sl. þar sem kosnir voru félagsmenn í stjórnir og nefndir félagsins. Félagið mannar ýmsar nefndir sem sumar hverjar hafa ekki komið saman á árinu. Kannski þurfum við að endurskoða þetta fyrirkomulag og manna nefndir eftir þörfum. Gallinn við það er lengri viðbragðstími og líkur eru á að erfiðara yrði að manna stjórn félagsins ef stuðningsnetið vantar. Ég legg það í ykkar hendur að íhuga það fram að næsta aðalfundi sem ákveðinn hefur verið þann 26. apríl næstkomandi.

Kjaramálin hafa verið áberandi á árinu þó lítill virðist ávinningurinn. Gengið var frá stofnanasamningum á tveimur stofnunum á árinu, en nú eru fimm stofnanir sem enn hafa ekki innleitt ákvæði gerðardóms í sína stofnanasamninga. Formaður hefur reynt að hafa samband við þessar stofnanir en ekki fengið fundi til að ræða stofnanasamninga. Ég legg til að þeir lífeindafræðingar sem starfa á stofnunum sem hafa mjög gamla samninga leggi okkur lið og fari fram á endurskoðun samninga næst þegar þau rekast á yfirmanninn í matsalnum. Að auki höfum við sótt námskeið og fundi í tengslum við stofnanasamningakerfið í heild sinni, rýnifund á vegum BHM um verkfallsaðgerðirnar 2015 og ýmsa samráðsfundi innan Bandalags háskólamanna, bæði formlega og óformlega.

Samninganefnd félagsins hefur fundað mikið á árinu enda rann gerðardómur sitt skeið og kjarasamningar félagsmanna hafa verið lausir frá september 2017. Samninganefndin hefur verið dugleg að rýna gögn í undirbúningsvinnunni, bæði sem við höfum unnið sjálf og einnig gögn sem BHM hefur unnið fyrir okkur. Ég held að það sé óhætt að segja að samninganefnd FL hafi aldrei farið jafn vel nestuð upplýsingum á fund SNR, hvort það skilar miklum ávinningi er hins vegar annað mál. Fundir við viðsemjendur hafa verið fimm á liðnu ári og næsti fundur hefur ekki verið boðaður. Fyrir liggur tilboð frá ríkinu um kjarabætur sem er óásættanlegt eins og staðan er í dag, í það minnsta ef ætlunin er að gera stofnanir ríkisins samkeppnishæfar við almenna markaðinn. Kannski ættum við að hætta þessum tilraunum til forsjárhyggju gagnvart þessum stóra vinnuveitanda og styðja betur við starfandi lífeindafræðinga á almennum markaði, og leyfa ríkinu að tækla sín framtíðarvandamál í friði án okkar afskipta? Ábyrgðin á lágum launum og slæmu starfsumhverfi er alltaf vinnuveitandans en ekki stéttarfélags. Ég held að það sé vandfundið það stéttarfélag sem stendur í vegi fyrir bættum kjörum og starfsumhverfi félagsmanna sinna.

Ekki tókst okkur að gefa út tímarit á þessu ári en það þýðir ekki að við höfum ekki fylgst með nýungum í faginu. Formaður sótti í haust, ásamt fulltrúa stjórnar, aðalfundi allra helstu erlendu samstarfsaðila okkar, norðurlandasamtökunum NML, evrópusamtökum lífeindafræðinga EPBS og alþjóðasamtökum lífeindafræðinga IFBLS. Ekki er búið að lesa yfir fundargerðir þessara funda en þær verða fljótlega settar inn á innri vef félagsmanna þar sem hægt verður að nálgast þær. Á þessum fundum var margt rætt og ljóst er að vandamálin sem steðja að lífeindafræðingum eru ekki þau sömu alls staðar. Þó virðast flestir í þeim sporum að hafa áhyggjur af nýliðun sem virðist hafa verið mjög lítil á lækningarannsóknarstofum undanfarinn áratug eða svo. Sums staðar vantar nær heila kynslóð á vinnustaðina sem skapar ákveðin vandamál þá einkanlega tengd samskiptum og vinnumenningu. Lífeindafræðingar í Evrópu eru einna helst að hugsa um hvernig hægt sé að ná eyrum Evrópubandalagsins til að fá þá til að setja saman reglugerð sem kveður á um lágmarksmenntun lífeindafræðinga, og eins kröfur um hæfni, þekkingu og færni sem tengjast þá umræðunni um heiminn sem einn vinnumarkað og viðmiðum sem sett eru í starfaflokkunarkerfi hvort heldur sem er innlend, evrópsk eða alþjóðleg. Lífeindafræðingum er mikið í mun að aðrir sem ekki hafa þekkingu á störfum okkar setji ekki niður slíkar skilgreiningar heldur sé það gert í samvinnu við lífeindafræðinga. Allir eru spenntir fyrir næsta alþjóðaþingi sem verður næsta haust í Flórenz og lítur út fyrir áhugaverða dagskrá svo það borgar sig að fylgjast vel með. Næsta norðurlandaráðstefna verður svo með öðru sniði en verið hefur undanfarin ár en í stað hefðbundinnar ráðstefnu munu Svíar halda menntaráðstefnu vorið 2019 sem verður sérstaklega miðuð að kennurum í lífeindafræði en Danir munu svo slá saman alþjóðaráðstefnu og norðurlandaráðstefnu og halda veglega ráðstefnu að hausti árið 2020 í Kaupmannahöfn.

Auk þess sem hér er talið upp hefur formaður fundað með samstarfsfélögum okkar í SIGL og gengur samstarfið ljómandi vel. Það er mikil stoð að deila skrifstofu með fleirum, ef málum væri ekki háttað á þann veg þá held ég að Félag lífeindafræðinga kæmist ekki af með formann í 50% starfi og 25% starf skrifstofustjóra. Formaður hefur einnig aðstoðað félagsmenn vegna ýmissa einstaklingsmála, þau eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Sum þessara mála stafa af misskilningi og leysast venjulega farsællega á stuttum tíma. Önnur eru flóknari og erfiðari viðureignar og stundum verðum við jafn vel að játa okkur sigruð í glímunni um réttindi félagsmanna á vinnumarkaði eða í starfstengdum málum en það gerum við þó ekki nema okkur finnist allar leiðir fullreyndar.

Í þessari stuttu upptalningu má heldur ekki gleyma þeirri nýbreytni sem félagið reyndi á haustfundi, í tilefni 50 ára afmælis, en þá fórum við úr húsi á viðburð í stað hefðbundinna veitinga eftir fund. Stjórn ákvað einnig að bjóða félagsmönnum í gönguferð í Þórsmörk síðastliðið haust í tengslum við 50 ára afmælið en það vildi ekki betur til en svo að haustlægðirnar dundu yfir okkur einmitt á sama tíma svo ferðinni var frestað um óákveðinn tíma en verður farin næsta vor í staðinn og munum við auglýsa hana með góðum fyrirvara. En að lokum viljum við hjá Félagi lífeindafræðinga nota tækifærið og óska félagsmönnum öllum gæfuríks komandi árs .

Kveðjur, Gyða og Margrét.

Ný merki FL komin!

By | Aðalfundir, Fréttir, Kjaramál | Engar athugasemdir

Kæru félagsmenn.

Nú líður að jólum og við vonumst til að þau verði félagsmönnum friðsæl og ánægjuleg. Eitt og annað hefur drifið á daga okkar hjá FL á árinu og ég mun rifja upp það helsta í pistli sem ég set hér inn um áramót. Einmitt í dag er þó ljóst að hvorki gengur né rekur samningaviðræðum FL og SNR auk þess sem nokkrar stofnanir hafa ekki gengið frá úthlutun 1,65% menntunarákvæði gerðardóms. Ef þú félagsmaður góður starfar á stofnun sem ekki hefur endurnýjað stofnanasamning frá úrskurði gerðardóms hvetjum við þig til að krefja forstöðumenn svara um hverju sætir. Af hverju er ekki gengið frá þessum málum?

Vinstra megin er gamla merkið og hægra megin það nýja.

Nýja merkið hægra megin við hlið þess gamla.

En að ánægjulegra málefni. Félagið hefur nú fengið í hendurnar ný barmmerki félagsins. Þessi nýju merki eru alveg eins og

gömlu merkin utan það að vera aðeins minni og án númers. Nýju merkin eru líka á prjóni en ekki nælu. Stjórn FL hefur ákveðið að ekki verður krafist endurgjalds fyrir merkin og geta félagsmenn því sótt sér merki hingað á skrifstofu félagsins, eða nálgast þau á félagsfundum. Einnig hefur stjórn sett niður dagsetningar bæði fyrir aðalfund félagsins, sem verður haldinn þann 26.apíl næstkomandi, og dagsferð sem féll niður vegna veðurs í haust, en hún verður farin 5.maí. Dagsferðin verður auglýst betur þegar nær dregur en við hvetjum lífeindafræðinga til að merkja strax við þessa daga í dagatalinu fyrir árið 2018.

Að lokum fylgir hér með jólakveðja okkar hjá félaginu til félagsmanna, gleðileg jól.

Ályktun frá stjórnarfundi Félags lífeindafræðinga þann 21.nóvember 2017

By | Kjaramál | Engar athugasemdir

Eftirfarandi ályktun kom fram á stjórnarfundi félagsins í tengslum við yfirsandandi kjaraviðræður ríkisins og FL.

Reykjavík, 21.nóvember 2017

Stjórn Félags lífeindafræðinga telur mjög mikilvægt að ríkið taki ábyrgð sína sem vinnuveitandi alvarlega. Gera þarf miðlægan kjarasamning við Félag lífeindafræðinga sem tryggir launaþróun félagsmanna en auk þess þarf ríkið sem vinnuveitandi að gera stofnunum þeim sem lífeindafræðingar starfa á kleift að ráða til sín nýtt starfsfólk í stað þess stóra hóps sem er að fara á eftirlaun. Til þess þarf að bæta bæði laun og starfsaðstæður. Launasetning á stofnunum er allt of lág, nýútskrifaðir lífeindafræðingar fá umtalsvert betur borgað annars staðar. Starfsumhverfi er oft mjög ábótavant, húsnæði lélegt, jafnvel myglað, álag of mikið og þreyta setur mark sitt á vinnumenninguna. Það er ekki að undra að ungir lífeindafræðingar leiti á almenna markaðinn í stað þess að ráða sig hjá stofnunum ríkisins. Í þessu þarf átak, bæði miðlægt og á stofnunum, ef ríkið hefur áhuga á að starfrækja áfram lækningarannsóknastofur sem mannaðar eru fagmenntuðu starfsfólki. Lífeindafræðingar eru takmörkuð auðlind.

Stjórn FL. 

Nánari upplýsingar um lífeindafræðinga í starfi hjá ríki:

Meðfylgjandi mynd sýnir aldursdreifingu starfandi lífeindafræðinga hjá ríkinu. Mjög margir lífeindafræðingar sem eru 60 ára og eldri eru aðilar að B-sjóði LSR, eða sambærlilegum sjóði sveitarfélaga, og geta því farið á eftirlaun þegar svokallaðri 95 ára reglu hefur verið náð eða þegar samanlagður starfs- og lífaldur hefur náð 95 árum, þó ekki fyrr en í fyrsta lagi við 60 ára aldur. Nú er ljóst af súluritinu, jafnvel þó það taki ekki tillit til starfshlutfalls, að mjög stór hluti starfandi lífeindafræðinga hefur nú þegar náð almennum eftirlaunaaldri, og enn fleiri sé B-sjóðs hópurinn talinn með. Sem betur fer hefur þessi hópur ekki hætt störfum enn og vonandi gerist það ekki í bráð. Það er þó aukin hætta á að þessi mikilvægi hópur lífeindafræðinga, sem  þegar hefur öðlast rétt til eftirlauna, yfirgefi vinnustaðina. Undanfarin ár hefur álag stöðugt aukist, undirmönnun  er viðvarandi og svigrúm til að sinna öðrum nauðsynlegum verkum sem ekki snúa að kjarnastarfssemi minnkar sífellt.  Sameiginlegt átak þarf til að forða stórslysi í þessari mikilvægu grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins, hlúa þarf að þeim sem nú þegar eru í starfi svo þeir gefist ekki upp á meðan leitað er að leiðum til að laða unga nýútskrfaða lífeindafræðinga til starfa hjá ríkinu.

Nýr samningur milli BHM og SA

By | Fréttir, Kjaramál | Engar athugasemdir

Nýr ótímabundinn kjarasamningur milli  14 aðildarfélaga Bandalags háskólamanna annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar hefur verið undirritaður. Samningurinn byggir á fyrri kjarasamningi aðila frá árinu 2011. Nyja samninginn má nálgast hér.

Kjarasamningur aðildarfélaga BHM og SA er ólíkur ýmsum öðrum kjarasamningum að því leyti að hann er réttindasamningur en í honum er ekki samið um laun fyrir einstök störf eða starfsmenn. Launakjör eru hins vegar ákvörðuð í ráðningarsamningi milli vinnuveitanda og viðkomandi háskólamanns, og getur starfsmaður óskað árlega eftir viðtali við sinn yfirmann um breytingar á starfskjörum. Sérstakur skýringarrammi var settur í samninginn um þessi árlegu launaviðtöl.

Í samningnum er staðfest áður gert samkomulag aðila um aukið framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóði, en framlagið hækkaði í 10% 1. júlí síðast liðinn og hækkar í 11,5% frá 1. júlí 2018. Þá er vinnuveitanda skylt að greiða framlag í Starfsmenntunarsjóð BHM, en það var áður valkvætt. Ný heimildarákvæði voru sett í samninginn, er kveða á um að að valkvætt sé að greiða í Vísindasjóð viðkomandi stéttarfélags og í Starfsþróunarsetur háskólamanna. Nýtt ákvæði var tekið inn um staðgengla, og breytt eða aukin margvísleg ákvæði í ýmsum köflum samningsins, svo sem um uppsagnarfrest á reynslutíma, breytingar á vaktavinnukafla, veikindakafla, fræðslumálum og fleiru. Þá var lögð áhersla á mikilvægi þess að vinnuveitandi og starfsmaður geri með sér skriflegan ráðningarsamning í upphafi ráðningar.

 

Nýr stofnanasamningur undirritaður á LSH

By | Fréttir, Kjaramál | Engar athugasemdir

Félag lífeindafræðinga og Landspítali hafa undirritað nýjan stofnanasamning sem felur í sér ráðstöfun á 1,65% hækkun vegna menntunarákvæða sem útfæra átti skv. gerðardómi í stofnanasamningum. Aðilar ákváðu að breyta mati á menntun í takt við það sem gerðardómur kvað á um og er útfærslan á samningnum frekar flókin fyrir vikið, en breyta þurfti skilgreiningum bæði á flokkum og þrepum í launasetningu lífeindafræðinga á LSH. Vægi grunnmenntunar er aukið í launasetningunni (sólarlagsþrep/ótilgreint þrep er fært inn í grunnlaunasetningu) og vægi viðbótarmenntunar útfært í samræmi við gerðardóm. Þetta verður til þess að launasetning allra lífeindafræðinga breytist, þ.e.a.s. gildin á bak við flokkana og þrepin breytast hjá öllum. Sumir lífeindafræðingar verða ekkert varir við þessar breytingar, aðrir lífeindafræðingar hækka vegna breytinga á vægi menntunar í launasetningu.

Í nokkuð einfölduðu máli er útfærslan þessi:

Samningurinn var undirritaður þann 21. desember en breytingar á launasetningu eru afturvirkar frá júní 2016. Reikna má með að breytt launasetning verði leiðrétt með launakeyrslu í janúar/febrúar. Athugið að tilfærslur geta verið á milli flokka/þrepa í launasetningu lífeindafræðinga en enginn lífeindafræðingur á að lækka í launum (krónutölu) við þessar breytingar.

Það er sérstakt ánægjuefni að nýútskrifaðir lífeindafræðingar hækka til framtíðar við þessar breytingar um 5% frá þeirri launaröðun sem verið hefur í gildi. Kynningarfundur verður haldin í janúar 2017, auglýst síðar.